Upplýsingaöryggisstefna dómstólasýslunnar

 

 

Tilgangur

Upplýsingaöryggisstefna dómstólasýslunnar er sett fram til þess að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem verða til, berast eða eru varðveitt hjá dómstólum.

Upplýsingakerfi dómstólanna innihalda viðkvæmar og persónugreinanlegar upplýsingar sem óheimilt er að nota í öðrum tilgangi en vegna starfsemi dómstólanna.

 

Umfang

Upplýsingaöryggisstefna þessi gildir um dómstólasýsluna, Hæstarétt Íslands, Landsrétt, héraðsdóm Reykjavíkur, héraðsdóm Reykjaness, héraðsdóm Vesturlands, héraðsdóm Vestfjarða, héraðsdóm Norðurlands vestra, héraðsdóm Norðurlands eystra, héraðsdóm Austurlands og héraðsdóm Suðurlands. Stefnan nær einnig til þjónustuaðila upplýsingakerfa dómstólanna.

Upplýsingaöryggisstefnan nær til umgengni og vistunar allra gagna, óháð formi, sem eru í vörslu áðurnefndra stofnana.

Þessi stefna er bindandi fyrir alla starfsmenn dómstólanna sem og alla þjónustuaðila sem meðhöndla gögn og kerfi dómstólanna. Allir þessir aðilar eru skuldbundnir til að vernda upplýsingar og upplýsingakerfi dómstóla í samræmi við gildandi lög, reglur sem dómstólasýslan setur og verkferla.

 

Markmið

  • Að varðveita og hámarka öryggi upplýsinga dómstólanna á skilvirkan hátt ásamt því að lágmarka rekstraráhættu og tryggja samfelldan rekstur.

  • Trúnaðarupplýsingar séu óaðgengilegar óviðkomandi og tryggilega varðar gegn innri og ytri ógnum svo sem skemmdum, eyðingu eða uppljóstrun, hvort sem er af ásetningi eða vangá. 

  • Meðferð gagna tryggi að þau séu skráð og varðveitt á fullnægjandi hátt til þess að tryggja það þau séu áreiðanleg, rétt og tiltæk.

  • Aðgangsheimildum notenda sé stýrt á formlegan og rekjanlegan hátt.

  • Stuðla að virkri öryggisvitund starfsmanna og þjónustuaðila með fræðslu og leiðbeiningum.

  • Starfsmenn og þjónustuaðilar eru hvattir til þess að tilkynna frávik, brot eða grun um veikleika í upplýsingaöryggi og þannig stuðla að stöðugum umbótum.

 

Endurskoðun

Dómstólasýslan sér til þess að upplýsingaöryggisstefna dómstólanna sé endurskoðuð reglulega. Í kjölfar endurskoðunar er stefnan uppfærð og samþykkt formlega. Stefnan og hugsanlegar breytingar á henni er síðan kynnt starfsfólki og samstarfsaðilum auk þess sem hún er birt á vef dómstólasýslunnar.

 

Lagt fyrir stjórn og ritað undir af hálfu framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar.

Þannig staðfest 29. janúar 2019

Ólöf Finnsdóttir

framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar