Reglur dómstólasýslunnar nr. 6/2024

 

1. gr.
Gildissvið


Reglur þessar eiga við um  aðgang almennings að endurritum af dómum og úr þingbók og að afritum af framlögðum skjölum sem og upplýsingum um einstök mál hjá Landsrétti og héraðsdómstólum, eftir að málum er endanlega lokið fyrir dómstólum. Í aðgangi felst afhending endurrits eða afrits gagna nema annað sé tekið fram í reglunum eða ákvörðun dómstjóra, eða eftir atvikum forseta Landsréttar. 
Reglurnar eiga ekki við um aðila að því dómsmáli sem beiðni um aðgang tekur til. Brotaþoli í sakamáli og sakborningur á rannsóknarstigi skoðast sem málsaðilar í þessum skilningi.
Um rétt til að fá endurrit úr þingbók og dómabók eða afrit málsskjala  á meðan mál er rekið fyrir æðra dómi eða héraðsdómi fer, eftir því sem við á, samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Um afhendingu og aðgang að hljóð- og myndupptökum héraðsdómstóla og Landsréttar gilda reglur dómstólasýslunnar þar um. 


2. gr. 
Beiðni um aðgang að gögnum


Beiðni um aðgang að gögnum skal beina skriflega til viðkomandi dómstóls. Í beiðni skal nafn og kennitala beiðanda koma fram. Einnig skal tilgreina það dómsmál sem um ræðir eins nákvæmlega og unnt er og hvaða gögnum er óskað eftir aðgangi að. Þegar um einkamál er að ræða skal sérstaklega rökstutt á hvaða grundvelli réttur til aðgangs að gögnum byggir. 
Í beiðni um aðgang að gögnum skal tekið fram hvort óskað sé eftir því að fá skoðunaraðgang eða afrit eða endurrit umbeðinna gagna afhent á pappír eða rafrænu formi.

3. gr.
Málsmeðferð

Dómstjóri, eða eftir atvikum forseti Landsréttar, tekur afstöðu til beiðni um aðgangs að gögnum. 

Ef kostur er skal gefa aðilum einkamáls, sem beiðni tekur til, tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum áður en ákvörðun er tekin um að heimila aðgang að umbeðnum gögnum.

Heimilt er að krefjast úrskurðar um synjun um aðgang að umbeðnum gögnum, sbr. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 og 7. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008.  Skal þeim sem er ólöglærður bent á þann rétt sinn.
Beiðni skal afgreidd eins fljótt sem við verður komið og almennt ekki síðar en innan mánaðar frá því að hún berst. 


4. gr.
Réttur til aðgangs að gögnum í sakamáli

Almenningur á rétt á að fá afhent gegn greiðslu gjalds afrit af ákæru og greinargerð ákærða sem og staðfest endurrit úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók. 

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal synja um að láta í té afrit af þeim hlutum ákæru og greinargerðar sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Enn fremur ef mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess, svo sem ef um er að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál eða samskipti þess við önnur ríki eða alþjóðastofnanir.

Áður en endurrit samkvæmt 1. mgr. eru afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Við mat á því hvað skuli afmáð skal litið til reglna dómstólasýslunnar um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla.

Um aðgang að gögnum í sakamáli sem lokið var fyrir 1. janúar 2009 fer eftir ákvæðum eldri laga.


5. gr.
Réttur til aðgangs að gögnum í einkamáli

Réttur almennings til aðgangs að gögnum í einkamáli samkvæmt reglum þessum er bundinn við þá sem sýnt geta fram á sérstaka hagsmuni, s.s. vegna náinna tengsla við málið eða vegna málarekstrar fyrir dómstóli eða stjórnvaldi í sambærilegu máli. Réttur almennings tekur þó ekki til gagna sem hafa fjárhagslegt virði, s.s. matsgerða sem aðilar að viðkomandi máli hafa greitt fyrir,  eða gagna sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna-, fjárhags-, viðskipta- eða einkahagsmuna.  
Áður en veittur er aðgangur að gögnum eða þau afhent skal, ef sérstök ástæða er til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tillit til almanna-, fjárhags-, viðskipta eða einkahagsmuna. Við mat á því hvað skuli afmáð skal litið til reglna dómstólasýslunnar um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla.


6. gr. 
Aðgangur að upplýsingum

Umfram það sem mælt er fyrir í reglum þessum verður ekki veittur aðgangur að upplýsingum um einstök mál sem ekki hafa verið gerðar opinberar af hálfu dómstólanna. Gildir það um hvers kyns upplýsingar úr málaskrá viðkomandi dómstóls, þar á meðal um það hvort tilteknir einstaklingar eða lögaðilar eigi eða hafi átt aðild að dómsmáli. Einstaklingur eða lögaðili getur þó veitt samþykki fyrir því að upplýsingar af þessu tagi hvað hann varðar séu veittar tilteknum aðila.

Dómstólasýslunni er þó heimilt að afhenda opinberum aðilum svo og einkaaðilum, ef það rúmast innan þeirra heimilda sem þeir hafa til vinnslu persónuupplýsinga, safn upplýsinga sem mikilvægt er að teknar séu saman vegna ríkra almannahagsmuna. 

 
7. gr.
Aðgangur að gögnum og upplýsingum í þágu vísinda

Heimilt er að veita aðgang að gögnum og upplýsingum úr dómsmálum í þágu fræðirannsókna. Slíkan aðgang má veita fræðimönnum sem starfa við menntastofnanir eða aðrar stofnanir þar sem rannsóknir í lögfræði eða á öðrum fræðasviðum eru stundaðar ef þeir sýna fram á að þeir þarfnist aðgangs vegna rannsókna sinna og fræðistarfa. 


Aðgangur í skilningi 1. mgr. felur aðeins í sér heimild til að kanna gögn og upplýsingar á aðsetri dómstóls og skal gripið til viðeigandi úrræða til að koma í veg fyrir að gögn verði afrituð.


Ef ástæða þykir til skal leyfi til aðgangs að gögnum og upplýsingum bundið því skilyrði að fyrir liggi heimild Persónuverndar til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga eða eftir atvikum leyfi vísindasiðanefndar á grundvelli laga nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.


Áður en aðgangur að gögnum eða upplýsingum samkvæmt 1. mgr. er veittur skal viðkomandi undirrita yfirlýsingu um trúnað.


8. gr.
Gjaldtaka

Um gjaldtöku fyrir aðgang að gögnum fer samkvæmt lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Heimilt er að krefjast greiðslu áætlaðs gjalds samkvæmt 1. mgr. áður en afhending fer fram.9. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í f-lið 15. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og f-lið 17. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og eru bindandi. Þær öðlast þegar gildi og falla þá úr gildi reglur nr. 9/2018 um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólunum. 

 

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
21. mars 2024.


Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.