Bókun stjórnar dómstólasýslunnar vegna ákvörðunar MDE

Bókun stjórnar dómstólasýslunnar á fundi 9. september 2019 í kjölfar ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu að vísa dómi frá 12. mars sl. um skipun dómara við Landsrétt til yfirdeildar dómsins.

"Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars 2019 var komist að þeirri niðurstöðu að skipun tiltekins dómara við Landsrétt hafi falið í sér brot gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Eftir að dómurinn féll hafa fjórir dómara ekki gegnt dómstörfum við réttinn. Af þeim sökum hefur óafgreiddum málum við réttinn fjölgað og málsmeðferðartími lengst, en um það vísast til upplýsinga frá Landsrétti.

Á fundi dómstólasýslunnar 15. mars 2019 fór dómstólasýslan þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það hlutaðist til um lagabreytingu þannig að heimilt yrði að fjölga dómurum við Landsrétt. Frumvarp þess efnis var ekki flutt á Alþingi nú í vor.
Vegna fyrirsjáanlegs dráttar á málsmeðferð fól dómstólasýslan formanni stjórnar og framkvæmdastjóra með bókun 24. júní sl. að kanna hvort þeir fjórir dómarar við Landsrétt sem um ræðir væru reiðubúnir til þess að fara í launað leyfi til áramóta. Tveir þeirra féllust á það og hafa verið settir dómarar við réttinn í þeirra stað.

Nú liggur fyrir sú ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu að málinu verði vísað til yfirdeildar dómsins. Fyrirsjáanlega mun sú málsmeðferð taka allt að tveimur árum. Mjög brýnt er að brugðist verði við svo Landsréttur geti með viðunandi hætti sinnt hlutverki sínu. Með tilliti til þessa áréttar dómstólasýslan mikilvægi þess að verði fjölgað dómurum við réttinn með sólarlagsákvæði í samræmi við fyrri tillögu dómstólasýslunnar. Felur stjórn dómstólasýslunnar formanni og framkvæmdastjóra að taka upp viðræður við ráðuneytið um þetta."

Samþykkt með fjórum atkvæðum en einn sat hjá.