Fréttatilkynning stjórnar dómstólasýslunnar

Á fundi stjórnar dómstólasýslunnar fyrr í dag, 15. mars 2019, var eftirfarandi bókun samþykkt:

Eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll 12. þessa mánaðar í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi (mál nr. 26374/18) hefur dómstólasýslan haft til meðferðar viðbrögð við dóminum. Í þeim efnum hefur formaður stjórnar dómstólasýslunnar og framkvæmdastjóri átt ítarlegar viðræður við fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og nokkra af dómurum við Landsrétt, auk þess sem haft hefur verið samráð við réttarfarsnefnd. Að öllu þessu virtu fer dómstólasýslan þess á leit við ráðuneytið að það hlutist til um lagabreytingu um að heimilt verði að fjölga dómurum við Landsrétt. Þetta tekur mið af því að fjórir dómarar við réttinn geta að óbreyttu ekki tekið þátt í dómstörfum. Án þess að gripið verði til þessa úrræðis mun álagið við réttinn aukast verulega með tilheyrandi drætti á meðferð mála.

Áður en endanleg ákvörðun verður tekin um af Íslands hálfu að óska eftir að málinu verði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins leggur dómstólasýslan jafnframt ríka áherslu á að áhrif slíks málsskots verði könnuð. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga þá óvissu sem Landsréttur hefur mátt búa við allt frá því að hann tók til starfa 1. janúar 2018. Einnig telur dómstólasýslan mikilvægt að traustum stoðum verði skotið undir Landsrétt, svo fljótt sem verða má, í stað þess að lagalegur grundvöllur hans verði áfram dreginn í efa. Dómstólasýslan er reiðubúin til samráðs og að veita alla aðstoð í þessu sambandi.

Samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu.