Reglur dómstólasýslunnar nr. 2/2019 - leiðbeinandi

1. gr.
Gildissvið

Reglur þessar gilda um skipun skiptastjóra og umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum eftir lögum nr. 20/1991 um dánarbúskipti o.fl. og lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.


2. gr.
Lögmannalisti

Við héraðsdómstóla skal haldinn listi yfir þá lögmenn sem óska eftir að verða skipaðir skiptastjórar eða umsjónarmenn með nauðasamningsumleitunum. Skal listinn uppfærður reglulega.


3. gr.
Skipun skiptastjóra og umsjónarmanns

Þegar héraðsdómari skipar skiptastjóra eða umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum skal litið til eftirfarandi atriða:
a. Að verkefnum verði skipt jafnt á milli lögmanna eftir því sem kostur er.
b. Hvort lögmaður hefur starfsstöð í umdæmi dómstólsins, en í því tilliti skal litið á umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness sem eitt umdæmi.
c. Hvernig reynsla hefur fengist af störfum lögmannsins, þar með talið hvort dráttur hafi orðið á því að ljúka skiptum á búum eða opinberum skiptum af öðru tagi þar sem hann hefur verið skiptastjóri eða hvort borist hafa kvartanir yfir störfum hans sem ekki verður vísað á bug sem haldlausum.
d. Hvort lögmaður hefur aflað sér sérstakrar þekkingar á þeim sviðum sem koma að notum við þessi störf.
e. Reynsla lögmanns af þessum störfum þegar um er að ræða stærri bú eða umfangsmikil opinber skipti af öðru tagi.
f. Jafnréttis milli kynja, þannig að störf þessi standi til boða bæði konum og körlum.

4. gr.
Heimild og gildistaka

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, og eru til leiðbeiningar. Þær öðlast gildi 28. ágúst 2019.

Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
28. ágúst 2019.

Benedikt Bogason
formaður stjórnar dómstólasýslunnar.